GYM heilsa – Sporthúsið

Innilegar þakkir kæru meðlimir

 

Kæru GYM heilsu meðlimir í Kópavogi.

GYM heilsa hefur verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að þjónusta ykkur frá árinu 1997 í sundlaugum bæjarins.

Kópavogsbær hefur ákveðið að hætta samstarfi við GYM heilsu og því loka stöðvarnar í Sundlaug Kópavogs (þann 23. maí) og í  Salalaug (þann 30. maí).

GYM heilsa hefur tjaldað öllu til í baráttunni um að halda rekstri stöðvanna áfram í sundlaugarmannvirkjum bæjarins og það hefur verið afar fjárfrek og erfið rimma. Eftir að dómur í máli GYM heilsu gegn Kópaogsbæ féll GYM heilsu í óhag er því ljóst að GYM heilsa hefur því miður ekki bolmagn til að halda  baráttunni áfram lengur. Síðastliðin þrjú ár hefur ríkt óvissa um framtíð GYM heilsu í Kópavogi sem hefur gert reksturinn mjög þungan.

Þar sem GYM heilsa þarf að rýma stöðvarnar með mjög litlum fyrirvara og ljóst að fyrirtækið fær ekki að uppfylla kort meðlima GYM heilsu eftir 1. júní í sundlaugarmannvirkjum bæjarins, hefur fyritækið unnið hörðum höndum til að finna úrræði fyrir korthafa sem eru með gild kort framyfir 1. júní næstkomandi. Það eru því mikil gleðitíðindi að tilkynna að náðst hefur samkomulag við Sporthúsið varðandi framhaldið. Meðlimir GYM heilsu í Kópavogi sem eru með gild kort eftir 1. júní 2016  fá því kort sín uppfyllt í Sporthúsinu.

GYM heilsa er virkilega ánægt að geta boðið meðlimum GYM heilsu að klára kort sín í Sporthúsinu þar sem aðstaða er öll hin glæsilegasta og gríðarlegt úrval hóptíma og nýrra tækja er í boði. Þrátt fyrir að kortaverð í Sporthúsinu sé hærra en GYM heilsa hefur verið að bjóða, þá þurfa meðlimir GYM heilsu ekki að borga neinn mismun hvað kortin varðar en vissulega er ekki sundlaug á staðnum. Þjálfarar GYM heilsu verða til taks í Sporthúsinu frá 20. maí – 1. júní, ykkur að kostnaðarlausu til að aðstoða ykkur að læra á tækin og útbúa æfingaáætlanir.  Vinsamlegast snúið ykkur til Sporthússins ef frekari upplýsinga er þörf og verið velkomin að hringja strax í 564-4050 og panta ykkur tíma með þjálfara, ykkur að kostnaðarlausu.

GYM heilsa þakkar kærlega fyrir að fá að þjónusta meðlimi stöðvanna í Kópavogi frá árinu 1997 og er stolt af því að vera komið í samstarf við Sporthúsið varðandi framhaldið.

GYM heilsa mælir með Sporthúsinu fyrir alla meðlimi GYM heilsu í Kópavogi. Nú eru frábær tilboð á sumarkortum í gildi hjá Sporthúsinu sem tilvalið er að nýta sér fyrir þá sem ekki eiga kort í GYM heilsu.

Við viljum enn og aftur þakka ykkur kæru meðlimir fyrir allan stuðninginn sem þið hafið veitt okkur og við vitum að þið gerið ykkur grein fyrir stöðu mála og sýnið því skilning. Ég vil einnig þakka öllum starfsmönnum GYM heilsu og sundlauganna fyrir skilningsríki á stöðu mála og velvilja í garð GYM heilsu.

 

Kveðja, f.h. GYM heilsu, Kjartan Már Hallkelsson rekstrarstjóri