Í síðasta pistli talaði ég um auðsjáanleg merki sem geta gefið ábendingar um hjarta- og æðasjúkdóma. En það getur líka gerst að ólíklegustu einstaklingar falla í valinn fyrir hjarta- og æðasjúkdómum. Þegar slíkt gerist þá eru einhverjir undirliggjandi þættir sem ekki hafa komið fram, sem við áreynslu setja af stað hjartsláttaróreglu sem getur leitt til hjartastopps (Sudden cardiac death-SCD).

Þetta eru kannski börn að stíga sín fyrstu skref í íþróttum eða ungt afreksfólk í sinni grein sem hníga örend niður í miðjum leik. Eitt frægasta dæmið er þegar knattspyrnumaðurinn Marc-Vivien Foe sem var 28ára gamall landsliðsmaður Kamerún dó af völdum SCD í landsleik Kólumbíu og Kamerún í Lyon í Frakklandi 2003.

Yfirleitt eru þetta ungir menn í meirihluta eða 9 á móti 1 konu (líklega af því að þær eru í minnihluta þegar að þessum íþróttagreinum kemur) og í 90% tilvika gerist þetta í keppni eða á æfingu ². Í BNA gerist þetta oftast hjá körfuknattleiksmönnum, eða hjá ruðnings- leikmönnum ² en í Evrópu gerist þetta helst hjá knattspyrnumönnum ¹. Í Minnesota í BNA er algengið 1 á móti 200,000 hjá íþróttamönnum á framhaldsskólaaldri. Á Englandi deyja að meðaltali 12 einstaklingar á viku af SCD6 . Ekki liggja fyrir tölur frá Íslandi en þetta er þekkt hér líkt og annars staðar.

Tölur fengnar frá Minneapolis Heart Institute Foundation sýna að af 387 skráðum tilfellum af SCD hjá ungum íþróttamönnum, þá eru 5 helstu orsakavaldar; Hypertropic Cardiomyopathy (Ofvöxtur í hjartavöðva) algengasta orsökin eða í 33,9% tilfella, Commotio Cordis (Högg á hjarta) í 19,9% tilfella, Coronary artery anomalies (Afbrigðileg bygging kransæða) í 13,7% tilfella, Myocarditis (Hjartavöðvabólga) í 5,2% tilfella og að síðustu Ruptured aortic aneurysm (sprunginn slagæðagúlpur) í 3,1% tilfella 3,4.

 

Hypertrophic obstructive cardiomyopathy (HOCM)

HOCM veldur að jafnaði 1 af hverjum 500 tilvika SCD hjá almenningi ¹´². Þetta ástand lýsir sér fyrst og fremst í þykknun á vöðvafrumum í vinstri slegli hjartans og í 90% tilvika þykknar veggurinn, sem er á milli hólfa í hjartanu, líka. Þetta hindrar blóðið frá að fara úr vinstri slegli út í aðal slagæðina. Þessi þykknun og hindrun á blóðstreymi veldur útbreiddri truflun rafboða sem getur leitt til óreglu í slegli sem svo leiðir til hjartastopps. Eins og er, þá látast 3% fullorðinna og 6% barna með HCM á ári hverju.

Þó að ákveðin einkenni fylgi HCM, eins og brjósverkur, andateppa og yfirlið, hafa flestir þeirra ungu íþróttamanna verið án einkenna og lifað eðlilegu lífi.

HCM getur gengið í erfðir en í flestum tilfellum er engin fjölskyldusaga þannig að nákvæmari rannsóknir eins og læknisskoðun, hjartalínurit og hjartaómun eru nauðsynleg. Í einstaka tilfellum eru genin skoðuð. Einstaklingur sem hefur verið greindur með slíkt ætti einungis að stunda léttar og átakalausar íþróttagreinar eins og t.d.golf og keilu.

 

Commotio cordis

Commotio cordis er það kallað þegar hjartastopp verður af völdum höggs yfir hjartastað. Höggið getur verið sakleysislegt og þarf ekki einu sinni að ganga langt inn í brjóstkassann til þess að valda skaðanum. Samkvæmt rannsóknum á svínamódelum þarf höggið að koma beint á hjartað. Til að framkalla slegla hraðtakt eða óreglu (sem svo veldur hjartastoppi) verður þetta að gerast 15-30msek áður en svokallaður T-takki kemur, sem er þegar endurskautun verður í rafleiðslukerfi hjartans (sem er aðeins 1% af svo kölluðum hjartsláttarhring). Eins getur þetta gerst þegar höggið kemur við afskautun í rafleiðslukerfi hjartans samkvæmt sömu rannsókn ¹. Í rannsókn frá 2002 er greint frá 128 slíkum tilfellum í BNA yfir 5 ára tímabil. Í rannsókninni er greint frá því að flest fórnarlambanna voru karlmenn (95%),undir 18ára aldri (72%), og dóu á staðnum (82%) 5.

Í flestum tilfellum gerðist þetta á auglýstum íþróttaviðburði (68%) eins og í hafnarbolta- og íshokkíleik. Höfundar rannsóknarinnar fundu það út að restin af þessum tilvikum áttu sér stað á leikvöllum við sakleysisleg högg á brjóstkassann 5. Það hefur verið lagt til að varnir leikmanna verði bættar og að hjartastuðtæki sé til staðar á íþróttaleikvöllum og bara sem víðast. Ekki er annað hægt en að velta fyrir sér áhættu markmanna í handbolta, sem eru að fá í sig bolta á yfir 100km hraða.

 

Afbrigðilegar kransæðar

Venjulega fær hjartað blóð frá vinstri og hægri kransæð. Þær koma frá sitthvorum staðnum á ósæðinni rétt fyrir ofan hjartalokuna. Stundum víxlast þetta og vinstri kransæðin kemur frá þeim stað sem sú hægri kemur venjulga frá og öfugt. Þar myndast áberandi hlykkur á slagæðinni sem getur klemmst á milli lungnaæðanna og ósslagæðarinnar við áreynslu.

Þetta leiðir til þess að skyndilega lokast fyrir blóðflæðið til vinstri slegils og getur skemmt hluta af hjartavöðvanum. Þetta er hægt að koma í veg fyrir með aðgerð en það er erfitt að greina þetta í upphafi (greinist með hjartaþræðingu).

Viðkomandi ætti að geta snúið aftur til fyrri iðkunnar að 6 mánuðum liðnum, eftir að búið hefur verið að leiðrétta gallann með aðgerð.

 

Myocarditis

Bólgusjúkdómur sem veldur skemmd í hjartavöðvanum, sem getur leitt til hjartabilunar og hjartastopps. Aðal ástæða þessa er oftast sakleysisleg vírussýking með flensulík einkenni. Það er talið að allt að 5% þeirra sem fá vírussýkingu fái einhverskonar myocarditis.Þó þetta gangi fljótt yfir og skilji ekki eftir varanlegar skemmdir, lendir hluti fólks í þrálátum vanda (krónískt myocardítis) sem getur tekið mánuði eða ár að hrista af sér. Hvoru tveggja getur sett af stað hjartsláttaróreglu sem getur valdið SCD. Þess vegna væri skynsamlegt af íþróttamönnum að æfa ekki á meðan þeir eru með einhverja vírus- sýkingu og leita læknis, sérstaklega ef það fer að bera á brjóstverk, mæði og yfirliði.

Viðkomandi ætti að geta snúið aftur til fyrri iðkunar að 6 mánuðum liðnum, að því gefnu að allar rannsóknir sýni að allt sé orðið eðlilegt.

 

Rofinn ósæðargúlpur

Flest af því unga íþróttafólki sem lendir í þessu eru með Marfan’s syndrome. Það gengur í erfðir og er þá um einskonar stökkbreytingu á bandvef að ræða. Einstaklingar með Marfans’s syndrome geta haldið áfram sinni iðkun svo fremi sem ummál ósæðarinnar er innan eðlilegra marka. Helstu líkamlegu einkenni fólks með Marfan’s eru þau, að þetta eru háir og grannir einstaklingar með langa útlimi,tær og fingur. Of hreyfanlegir liðir, hryggskekkja, óvenju hár gómbogi og léleg sjón. Þeir sem búa við þennan áhættuþátt, ættu að geta tekið þátt í meðal erfiðum íþróttagreinum, svo lengi sem það er engin saga í ættinni um SCD og ummál ósæðar er innan öruggra marka.

 

Aðrar orsakir

Fleira orsakar SCD hjá ungu fólki en það sem nú er upptalið. Þó að fæðingargallar séu helsta orsökin eru það aðrir hlutir eins og slæmt astmakast eða hitaslag sem leggja lóð á vogaskálarnar. Ýmis örvandi efni sem notuð eru líkt og amfetamín og kókaín eru að koma sterkari inn nú á síðustu árum. Af greindum tilfellum eru c.a.2% af óþekktum orsökum ².

 

Hvað er til ráða?

Á Ítalíu hefur verið skimun og eftirlit með ungu íþróttafólki hvað lengst, enda státar Ítalía af lægri tíðni en gengur og gerist í öðrum löndum. Þeir eru bæði með læknisskoðun,mælingar og yfirheyrslu á ákveðnum spurningalista . Í BNA hafa menn byrjað samskonar skimun, en hefur hún legið undir ámæli vegna þess að það eru ekki gerðar kröfur um að það séu læknar,hjúkrunnarfræðingar eða sjúkraþjálfarar sem framkvæmi slíka skoðun. Á Englandi er einnig skimun í gangi og mikið gert úr því starfi sem þar er unnið. Frægir einstaklingar hafa tekið það að sér að vera verndarar þessara samtaka og vekja þannig athygli á þessu þarfa starfi.

Með því að fjölga hjartastuðtækjum á opinberum stöðum, lögreglubílum, leikvöllum og íþróttaleikvöllum er mikið forvarnarstarf unnið og hafa þau mál verið mjög til batnaðar hér. Annað sem hefur verið í umræðunni erlendis er að auka verjur í þeim íþróttum sem um ræðir, eins og íshokkí og hafnarbolta. Þá er verið að ræða um brynju beint yfir hjartanu til að koma í veg fyrir Commotio Cordis, en eins og er hefur ekkert komið á markaðin sem er nógu áhrifaríkt.

Eins og sjá má erum við eftir á sumum sviðum hvað þessi mál varðar, en vonandi verður tekið á þeim í náinni framtíð.

 

Heimildir:

1. Maron BJ, M.D.Sudden death in young athletes. New Eng J Med 2003;349:1064-75

2. Maron BJ, Shirani J, Poliac LC, Mathenge R, Roberts WC,Mueller FP. Sudden death in young competitive athletes: clinical, demographic and pathological profiles 1996; JAMA 276:199-204

3. Glower DW, Maron BJ. Profile of reparticipation cardiovascular screening for high school athletes 1998; JAMA 279:1817-9

4. S Firoozi, S Sharma, WJ Mackenna. Risk of competitive sport in young athletes with heart disease. Heart 2003; 89:710

5. Maron BJ,Goham TE, Kyle SB, Mark Estes NA, Link MS. Clinical profile and spectrum of commotion cordis. JAMA 2002;287:1142-6

6. http://www.c-r-y.org.uk/index.htm

 

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari

 

Comments are disabled.