„Betri er krókur en kelda“ er eitthvað sem flest allir hafa heyrt að minnsta kosti einu sinni um ævina. En þegar menn snúa dæminu við og velja kelduna frekar en krókinn, eru menn oftar en ekki í slæmum málum. Lyf til að auka getu og bæta árangur hafa verið notuð allt frá örófi alda sbr.víkingar notuðu berserkja-sveppi til að ganga betur í orustu, og keppendur á fyrstu ólympíuleikum notuðu sérstakt fæði til að bæta árangur eins og t.d. þurrkaðar fíkjur. Egyptar þurrkuðu og muldu hófa af asna til að bæta frammistöðu sína. Þannig mætti lengi telja.

Í dag er strangt eftirlit með misnotkun lyfja í íþróttakeppnum og ótal mörg lyfseðils skyld lyf eru á lista sem ólögleg lyf. Sem starfsmaður á hjartadeild LSH ber mér að þekkja algengustu hjartalyfin og virkni þeirra. Allavega tvennskonar hjartalyf hafa verið misnotuð í keppnisíþróttum,en það eru lyf sem hægja á hjartslætti og lyf sem eru þvaglosandi. Betablokkarar eru lyf sem hægja á hjartslætti og hafa verið notuð af keppnisfólki t.d. í skotfimi eða bogfimi til að bæta hittnina. Þvaglosandi lyf eru notuð af bardagaíþróttafólki til að ná sér niður í réttan flokk,eða aflíkamsræktar fólki sem þarf að skera sig svo mikið niður að vöðvar og vöðvaþræðir verði sýnilegir 1. Eins hafa hægðalosandi lyf verið notuð til þess sama .

Eins sorglegt og það nú er þá þykir það orðið sjálfsagt mál að nota lyf til að komast á stall við Schwartseneggera nútímans og heyrir maður steranotkun rædda eins fjálglega í pottum almennings sundlauga og hvað á að vera í kvöldmat, af 16 ára drengjum sem eru með jafn mikið húðslit á upphandleggjunum og nýbökuð móðir er með á maganum.

Annað sem er alveg jafn sorglegt er þegar ungar konur nota þvag- og eða hægðalosandi lyf til að grenna sig (sem er skamm góður vermir) líkt og fyrirmynd hreysti og fegurðar, á stalli í Fitness keppni. Því miður þykir þetta líka svo sjálfsagt mál að sumir einkaþjálfarar eru farnir að mæla með þessu. Fitubrennsluefni sem innihalda ephedrin þykja einnig sjálfsögð af öllum sem þurfa að losna hratt við þyngd.

Ég hef fengið að kynnast alvarlegum afleiðingum þessarar lyfja misnotkunar í starfi mínu og horft á foreldra,systkini,maka og börn ungs fólks með framtíðina fyrir sér, eyðilögð eftir heimsóknir til sinna nánustu sem eru því sem næst í „grænmetis“ ástandi.

Ungur maður sem var á kafi í líkamsrækt og notaði ephedrin fitubrennsluefni, lenti í hjartastoppi. Hann missti málið,getuna til að kyngja og að hreyfa sig vegna súrefnisskorts til heilans. Ég man ennþá eftir svipnum á fólkinu hans fyrir utan herbergið eftir að hafa horft á hann slefandi og fjarrænan í sjúkrarúminu. Hann þurfti að læra að tala upp á nýtt og varð ekki sama persónan eftir þetta.

Ung móðir sem stundaði líkamsrækt, heltekin af sinni líkamsþyngd hafði misnotað þvag- og hægðalosandi lyf til að ná af sér þyngd, þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir. Hún lenti í hjartastoppi vegna brenglunnar á steinefnum og missti mál, sjón og getuna til að hreyfa sig vegna súrefnisskorts til heila. Sumir aðstendur hennar þurftu áfallahjálp til að komast yfir það að horfa á þessa ungu konu læsta í spastískum stellingum, algjörlega ósjálfbjarga. Hún á langa vegferð fyrir höndum til að verða sjálfstæður og virkur einstaklingur. Hér eru svo nokkur sorgleg dæmi erlendis frá um misnotkun á þvagræsilyfjum.

Árið 1988, hrynur atvinnu líkamsræktar keppandinn Albert Beckles niður á sviði. Það tókst að lífga hann við og kom í ljós að hann þjáðist af ofþornunn vegna þvagræsilyfja.

Árið 1992, lést atvinnu líkamsræktar keppandinn Mohammed Benaziza eftir keppni í Evrópu. Krufning leiddi í ljós hjartaáfall vegna ofþornunar. Hann var 33 ára. Hann hafði notað blöndu af þvagræsilyfjum fyrir sýninguna.

Árið 1994, fékk atvinnu líkamsræktar keppandinn Paul Dillett, að því er virtist, magakrampa á sviðinu í Arnold Classic mótinu. Enn og aftur var vandamálið ofþornunn og ójafnvægi á blóðsöltum vegna notkunar á Lasix (þvagræsilyf). Hann lifði af.

Þá var það einnig árið 1996 að Andreas Munzer, þekktur fyrir „hrikalegt“ útlit, lést eftir að lifur og nýru gáfust upp. Krufningin leiddi í ljós alvarlega brenglun á blóðsöltum.

Í nóvember 2011, lést 29 ára gamall sýrlenskur líkamsræktar keppandi, Mahmoud Ibrahim Alhdidi, þegar hann tók þátt í heimsmeistaramóti karla í Amateur Bodybuilding í Mumbai, úr hjartaáfalli vegna ofþornunar.

Í júní 2011 lést Viorel Ristea þekktur rúmenskur líkamsræktar atvinnumaður, aðeins 29 ára gamall þegar hann var í Miami vegna Fitness Universe Weekend. Viorel Ristea eða „Schwarzenegger“ Rúmeníu eins og hann var kallaður, lést vegna ofnotkunnar þvagræsilyfja.

Ef þetta er áhættan við það að taka kelduna, þá er ég ekki í nokkrum vafa um að krókurinn er betri hvaða dag sem er. Ef fólk er að æfa undir handleiðslu þjálfara sem leggur til notkun á slíkum lyfjum,þá finnst mér ástæða til að kæra viðkomandi. Einungis læknar geta metið hvort viðkomandi þurfi á þessum lyfjum að halda og þeir einir hafa réttindi til að úthluta þeim, af því að þeir þekkja áhrif þeirra og aukaverkanir.

 

1. Michele Verroken MA(Ed), BEd (Hons) Director of ethics and anti-doping.Drug use and abuse in sport.Ballieres Clinical Endocrinology and Metabolism, Vol 14,No.1.pp1-23,2000

 

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari

Comments are disabled.