Almennt er það talið svo að ef að vöðvi er einhverja hluta vegna stuttur og stífur, sé það vegna þess að hann sé undir álagi einhæfrar vinnu, ósamræmi í vinnuframlagi annara aðlægra vöðva, eða álags vegna áunnins vana (*léleg líkamsstaða,svefnvenjur,hvíldar staða). Ef þannig er fyrir komið er líklegt að viðkomandi vöðvi sé búin að vera að gefa frá sér merki í formi staðbundins sársauka eða sársauka sem kemur fram í vefjum í kring, svokallaður “referral pain”. Ef maður gerir ekkert í málunum getur rifnað upp úr vöðvanum eða hann slitnað.

Gluteus medius er líkt og aðrir vöðvar hvað þetta varðar, nema vegna staðsetningar sinnar reynist það oft erfitt að festa fingur á að um svo kallað Gluteus medius/minimus syndrome(vegna legu vöðvana er ástandið kennt við báða vöðva,stundum í sitthvoru lagi) sé að ræða, því að verkir í mjöðm geta stafað af hinum ýmsum ástæðum. Þessir verkir eru almennt kenndir við Stóru hnjótu eða Greater trochanter pain syndrome (GTPS) og er algengt að sjúkraþjálfarar fá beiðni frá lækni sem hljómar upp á það.

Greining hefur orðið betri með aukinni þekkingu á líffærafræðinni og sjúkdómafræðinni á þessu svæði, með betri greiningar tækni eins og t.d.speglun.

Það þarf að útiloka hluti eins og Belgbólgu (bursitis),Glefsin mjöðm (external coxa saltans), álags brot eða Sciatica (taugaklemma). Með auknum skilningi á einkennum, líkamsskoðun og með rannsóknum (röntgen,MRI), verður meðferð auðveldari fyrir heilbrigðisstarfsmanninn sem sinnir sjúklingnum að greina á milli.

Þó að oftast sé hægt að meðhöndla vandamálið án aðgerðar, getur aðgerð leyst vandan í eitt skipti fyrir öll ¹.

GMS er mjög algengt meðal langhlaupara og lýsir sér sem þungur verkur sem liggur djúpt í rassvöðvunum, sem getur sent geisla út til annara staða í líkamanum s.s.mjóbaks,nára,læris eða fótar 4. Verkurinn batnar ekkert frekar við hvíld, en er oft verstur við snöggar og óvæntar hreyfingar.

Rannsókn með MRI, sýndi fram á það að af 24 einstaklingum með GMS, voru níu sem voru með Glut.Med. tendoitis (sinabólgur), hjá fimm hafði rifnað upp úr vöðvanum, sex voru með hvorutveggja þ.e.tendonitis og rifna vöðvaþræði, þrír reyndust vera án sjáanlegra ástæðna, og einn var með drep í vöðva vegna blóðþurrðar².

Meðferð fellst í því að bæta líkamsstöðu,líkamsvitund og brjóta upp leiða ávana hvað það varðar*. Í bráða ástandi byrjar meðferð oft með kælingu (kælipoka) og hvíld frá íþrótta iðkun og menn hafa jafnvel notað staf til að létta álagi af vöðvunum. Síðan er farið yfir í t.d. hljóðbylgjur, trigger-punkta meðferð, myofacial release. Að öðru leiti byggist meðferðin aðallega upp á sérhæfðum styrktar- og teygjuæfingum, sem byrjað er á eftir bráða ástand er yfirstaðið³. Það skiptir máli að vera ekki að ana af stað út í íþrótta iðkun fyrr en sjúkraþjálfari telur að meðferð sé lokið. Ég læt fylgja með mínar uppáhalds teygju æfingar fyrir þessa vöðva, sem og hjálparvöðva þeirra.Myndirnar eru úr þeirri góðu bók Stóru Teygjuæfingabókinni eftir Kristian Berg.

 

1. Eric J.Strauss, MD, Shane J.Nho, MD,MS, and Bryan T.Kelly,MD. Greater Trochanter Pain Syndrome Sports Med Arthrosc Rev.Volume 18,Number 2, June 2010.

2. Bird,P.A., et al. Prospective evaluation of magnetic resonance imaging and physical examination findings in patients with greater trochanteric pain synrome. Arth and Rheum,,Vol. 44, No. 9, Sept.2001, 2138-2145.

3. Dennis C.Bewyer,PT, Kathryn J.Bewyer,MBT. Rationale for treatment of hip abductor pain syndrome.The Iowa Orthopaedic Journal.Vol.22 57-60

4. Ian G.MacIntyre BSc,DC,CSCS. Gluteus Minimus Referral Pattern:An All Too Often Misdiagnosed Cause of Lateral Leg Pain in Runners. A Case Series.

www.sportsperformancecentres.com/.

 

Sá vínrauði – piriformis

Sá vínrauði - piriformis

Gluteus medius er rauður, Piriformis heitir sá vínrauði. Upphafs staða fyrir báðar vöðva teygjur.
Teygja fyrir Gluteus medius

Gluteus medius teygja

Teygja fyrir Piriformis.

Piriformis teygja

Piriformis nánari útfærsla

Nánari útfærsla á Piriformis teygju.
Hægt er að gera báðar vöðvateygjur úr sömu stöðu. Það þarf aðeins að breyta gráðum á horninu á því hné sem er á borðinu.

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari

Comments are disabled.