Sjúkraþjálfarar hafa á takteinunum ýmis próf til að finna út veikleika í stoðkerfinu. Okkur er líka kennt að skoða og taka eftir því sem stingur í augun í hreyfingum og líkamsburði fólks.Og held ég að það sé þannig varið með flest okkar að við erum alltaf að greina fólk hvar sem við erum. Hvort heldur er göngulag, hlaupalag, líkamsstöðu eða líkamsburð.

Þetta getur verið vandræðalegt þegar veikur Gluteus Medius á í hlut.

Veikleiki í GM (af hvaða völdum sem það er ) kallar á einkennandi göngulag og líkamsbeitingu eða viðbrögð líkamans við vandanum.

Þar má fyrst telja upp svo kallað Trendelenburg gait, en þá dettur gagnstæð mjöðm stöðufótar niður í göngu(dilla mjöðmum). Svo er það Gluteus medius gait, en þar sveiflast efri hluti líkamans til hliðanna yfir mjöðmina á stöðu fætinum (kjaga)¹. Í þriðja lagi er það þegar hnén renna inn fyrir miðlínu (kiðfætta stöðu hnjáliðar) og svo andstæðan (hjólbeinótta stöðu hnjáliðar). En þetta er ekki alveg klippt og skorið, þannig að hægt er að sjá blöndu af þessu í mörgum tilvikum.

Hvert þessara viðbragða veldur álagi á öðrum líkamshlutum og getur framkallað önnur stoðkerfis vandamál. Í grein sem var birt í Journal of Strength and Conditioning í Október 2008 var góð yfirlitsgrein um GM skrifuð af hópi sérfræðinga frá Nýja Sjálandi.

Í yfirlitsgrein sinni sjóða þeir saman æfingaáætlun úr nokkrum fræðigreinum í þremur áföngum, sem saman standa af vel þekktum æfingum sem verða erfiðari og meira krefjandi. Allt miðast þetta við að auka hreyfistjórnun, úthald og styrk. Þeir mæla með mörgum endurtekningum til að byrja með. Þegar tækni við framkvæmd er ásættanleg að mati sjúkraþjálfara, er farið yfir í næsta áfanga.

Í fyrsta áfanga eru æfingar án þyngdar, eins og “skelfiskur” sem er framkvæmd í hliðarlegu með hnén í 90°,síðan á að glenna í sundur hnén án þess að velta mjöðm aftur eða láta fætur missa kontakt, standa á öðrum fæti og færa lausa fótin endurtekið út til hliðar og passa að tær vísi fram. Í öðrum áfanga færast æfingarnar yfir í að vera þungaberandi æfingar sem reyna á jafnvægið, eins og fótspyrna á öðrum fæti, hnébeygja á öðrum fæti á kassa og lausi fóturinn vísar fram, eða þá með lausa fótinn fyrir aftan upp á bekk (gert með eða án handlóða). Í þriðja áfanga eru æfingar sem nýtast “sjúklingi” í sinni íþrótt, eins og að standa á öðrum fæti á óstöðugu undirlagi og henda eða sparka bolta í vegg².

Það getur verið líka verið slæmt að hafa stuttan og stífan GM, en þá er annað uppá teningnum. Meira um það seinna.

 

1.Joint Structure & Function. A Comprehensive Analysis. Pamela K.Levangie, Cynthia C.Norkin.

2.Gluteus Medius: Applied Anatomy, Dysfunction, Assessment, and Progressive Strengthening. Strength and Conditioning Journal, 30 (5), 41-53 Presswood L, Cronin J, Keogh J, Whatman C (2008).

 

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari

Comments are disabled.