Áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma
Mikið hefur verið rætt og ritað um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og hvernig einkenni hjartaáfalls lýsa sér. Í dag ættu allir að vera orðnir nokkuð vel upplýstir um þá hluti þannig að mig langaði aðeins að beina sjónum mínum að einkennum sem gera vart við sig í aðdragandanum. Aðdragandinn getur verið allt frá 4-6mánuðum niður í viku,þó hafa menn sagt frá einkennum sem gerðu vart við sig allt að tveimur árum fyrr.
Í starfi mínu eyði ég bróðurpartinum af tíma mínum í að ræða við sjúklinga sem hafa fengið hjartaáfall. Þegar menn líta yfir farinn veg sjá þeir að það voru ýmis teikn á lofti um það sem koma skildi. Þá voru menn búnir að kenna öllu öðru um en hjartanu eins og t.d.aldri, að þolið væri að minnka eða langvarandi hreyfingarleysi.
Þó nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu efni og hafa menn komist að því, meðal annars að það er töluverður munur á milli kynja á því hvernig kynin upplifa þessi einkenni. Brjóstverkur hjá konunum lýsir sér frekar sem þrýstingur eða þungur verkur fyrir brjóstinu, á meðan meirihluti karla upplifir beinan sársauka. Kannski þess vegna eru þær oft seinni til til að leita sér læknishjálpar.¹ Það getur leitt til langvarandi hjartaskemmda eða þaðan af verra. Þess vegna koma konur oft verr út en karlarnir eftir áfall. Í þessu skiptir tíminn öllu máli.
Aukin mæði er sameiginlegt einkenni beggja kynja. Í rannsókn á 18000 einstaklingum, konum(40%) og körlum kom það fram að þeir sem upplifðu mæði væru 3-5sinnum líklegri en hinir til þess að látast af völdum hjarta- og æðasjúkdóma.³ Konurnar fá oftar einkenni sem ekki eru alveg þessi týpísku einkenni. Í einni rannsókn kom fram að konur voru tvisvar sinnum líklegri en karlar til að upplifa ógleði,uppköst og meltingartruflanir í sínum einkennum um hjartaáfall.² Í annari rannsókn þar sem 515 konur voru rannsakaðar kom það fram að 78% þeirra hafði upplifað einkenni minnst 1 mánuði áður en áfallið kom, daglega eða einnu sinni í viku. 71% kvennana höfðu upplifað óvenju mikið magnleysi og 50% þeirra höfðu haft svefntruflannir. Yfir 40% þeirra töldu þetta alvarleg einkenni.¹
Margar sögur sem ég heyri ganga út á það að viðkomandi hafi tekið hraustlega til hendinni og rokið í að slá garðinn eða moka snjó úr innkeyrslunni en hafi vart komist áfram vegna mæði og þreytu. Einhverjir merkja vaxandi þrekleysi og kvíða orðið fyrir því að þurfa ganga upp stiga sem þeir áður gengu léttilega. Menn mæðast eftir stuttar göngur og kenna aldrinum um, lungun séu úr þjálfun eða að þeir séu ekki í formi og oft rjúka menn þá til við að kaupa líkamsræktarkort og ætla að snúa við blaðinu 1,2og 3. Ég hef heyrt sögur frá einstaklingum sem fóru of geyst og lentu í hjartastoppi, enn aðrir skreiddust heim eftir hverja æfingu með þyngsl fyrir brjóstinu ánægðir með að hafa tekið vel á því í ræktinni en enduðu svo inni á spítala með hjartaáfall. Eins virðist sem kuldi og mótvindur espi upp einkennin og því hætta menn að fara út að ganga í kulda og sætta sig við aðstæðurnar án þess að gera nokkuð í því fyrr en of seint. Ekki gera ekki neitt er slagorð sem á vel við í þessum aðstæðum.
Í Bandaríkjunum þurfa menn að fara til læknis og fá hjá honum vottorð um að þeir séu færir um að þjálfa undir handleiðslu þjálfara (hræðsla við lögsókn). Ég er ekki að hvetja til þess að þetta verði tekið upp hér, en ef þú ert einstaklingur á fimmtugs aldri (karlmenn í meiri áhættu) ,með hjartasjúkdóma í fjölskyldunni, reykir og ert með meðfædda sykursýki , þá mundi ég bóka tíma hjá hjartalækni í allsherjar úttekt eða í áhættumat hjá Hjartavernd áður en ég tæki til við þjálfun. Skoðaðu með gagnrýnum augum hverskonar lífsstíl þú hefur tileinkað þér og breyttu því sem þú getur haft áhrif á eins og að hætta að reykja, breyta mataræðinu og fara að stunda reglulega hreyfingu. Fleiri áunnir áhættu þættir eru há blóðfita (ekki arfgeng), hár blóðþrýstingur,streita,offita og sykursýki.
Ég bendi á tvær góðar heimasíður www.hjarta.is og www.lydheilsustod.is, en þar er að finna fleiri upplýsingar. Ég held að ég geti nánast fullyrt það að hjartað sé mikilvægasti vöðvi líkamans og við eigum aðeins eitt hjarta, svo það borgar sig að hugsa vel um það.
1. McSweeney JC,Cody M,O’Sullivan P,et al. Women’s early warning symptoms of acute myocardial infarction. Circulation. 2003;108:2619-2623.
2. Milner KA, Funk M,Richards S,et al. Gender differences in symptom presentation associated with coronary heart disease. Am J Cardiol.1999;84:396-399.
3. Abidov A,Rozanski A,Hachamovitch R,et al.Prognostic significance of dyspnea in patients reffered for cardiac stress testing. N Engl J Med.2005;353:1889-1898.
Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari
Um höfundinn:
Hlöðver B.Jökulsson útskrifaðist með stúdentspróf af svokallaðri Íþróttabraut frá Menntaskólanum á Egilsstöðum 1988 og var um tíma formaður tveggja íþróttafélaga á Héraði þ.e.Ungmennafélags Eiðaskóla og Ungmennafélags Skriðdæla, auk þess að keppa í hinum ýmsu íþróttagreinum fyrir Ungmenna og íþróttasamband austurlands. Hlöðver þjálfaði Íþróttafélög Skriðdælinga, Vallamanna og Fljótsdælinga bæði fyrir og eftir sameiningu auk þess að kenna íþróttir í Barnaskóla Fellabæjar einn vetur. Árið 1990-1991 dvaldist hann í Brasilíu og kenndi þá íþróttir í barnaskóla KFUM og K í Porto Alegre og var einn umsjónaraðila sumarbúða fyrir sama skóla. Eftir að hafa reynt að komast í gegnum síu (Numerus Clausus) í HÍ á námsbraut í sjúkraþjálfun 1994-1995 og hafa verið hafnað, hóf hann störf hjá Dominos Pizza á Íslandi og starfaði sem verslunarstjóri þar í mörg ár við góðan orðstýr. Hann hafði ekki sleppt draumnum um sjúkraþjálfunarnám og lét reyna aftur á það árið 2005 og komst inn í það skiptið. Með sínu háskólanámi vann Hlöðver sem þjálfari í heilsuræktarstöðvum Nautilus á Íslandi og eftir útskrift hefur hann starfað sem sjúkraþjálfari á hjartadeildum Landspítalans við Hringbraut.