Skyndidauði íþróttafólks

Í síðasta pistli talaði ég um auðsjáanleg merki sem geta gefið ábendingar um hjarta- og æðasjúkdóma. En það getur líka gerst að ólíklegustu einstaklingar falla í valinn fyrir hjarta- og æðasjúkdómum. Þegar slíkt gerist þá eru einhverjir undirliggjandi þættir sem ekki hafa komið fram, sem við áreynslu setja af stað hjartsláttaróreglu sem getur leitt til hjartastopps (Sudden cardiac death-SCD).

Þetta eru kannski börn að stíga sín fyrstu skref í íþróttum eða ungt afreksfólk í sinni grein sem hníga örend niður í miðjum leik. Eitt frægasta dæmið er þegar knattspyrnumaðurinn Marc-Vivien Foe sem var 28ára gamall landsliðsmaður Kamerún dó af völdum SCD í landsleik Kólumbíu og Kamerún í Lyon í Frakklandi 2003.

Yfirleitt eru þetta ungir menn í meirihluta eða 9 á móti 1 konu (líklega af því að þær eru í minnihluta þegar að þessum íþróttagreinum kemur) og í 90% tilvika gerist þetta í keppni eða á æfingu ². Í BNA gerist þetta oftast hjá körfuknattleiksmönnum, eða hjá ruðnings- leikmönnum ² en í Evrópu gerist þetta helst hjá knattspyrnumönnum ¹. Í Minnesota í BNA er algengið 1 á móti 200,000 hjá íþróttamönnum á framhaldsskólaaldri. Á Englandi deyja að meðaltali 12 einstaklingar á viku af SCD6 . Ekki liggja fyrir tölur frá Íslandi en þetta er þekkt hér líkt og annars staðar.

Tölur fengnar frá Minneapolis Heart Institute Foundation sýna að af 387 skráðum tilfellum af SCD hjá ungum íþróttamönnum, þá eru 5 helstu orsakavaldar; Hypertropic Cardiomyopathy (Ofvöxtur í hjartavöðva) algengasta orsökin eða í 33,9% tilfella, Commotio Cordis (Högg á hjarta) í 19,9% tilfella, Coronary artery anomalies (Afbrigðileg bygging kransæða) í 13,7% tilfella, Myocarditis (Hjartavöðvabólga) í 5,2% tilfella og að síðustu Ruptured aortic aneurysm (sprunginn slagæðagúlpur) í 3,1% tilfella 3,4.

 

Hypertrophic obstructive cardiomyopathy (HOCM)

HOCM veldur að jafnaði 1 af hverjum 500 tilvika SCD hjá almenningi ¹´². Þetta ástand lýsir sér fyrst og fremst í þykknun á vöðvafrumum í vinstri slegli hjartans og í 90% tilvika þykknar veggurinn, sem er á milli hólfa í hjartanu, líka. Þetta hindrar blóðið frá að fara úr vinstri slegli út í aðal slagæðina. Þessi þykknun og hindrun á blóðstreymi veldur útbreiddri truflun rafboða sem getur leitt til óreglu í slegli sem svo leiðir til hjartastopps. Eins og er, þá látast 3% fullorðinna og 6% barna með HCM á ári hverju.

Þó að ákveðin einkenni fylgi HCM, eins og brjósverkur, andateppa og yfirlið, hafa flestir þeirra ungu íþróttamanna verið án einkenna og lifað eðlilegu lífi.

HCM getur gengið í erfðir en í flestum tilfellum er engin fjölskyldusaga þannig að nákvæmari rannsóknir eins og læknisskoðun, hjartalínurit og hjartaómun eru nauðsynleg. Í einstaka tilfellum eru genin skoðuð. Einstaklingur sem hefur verið greindur með slíkt ætti einungis að stunda léttar og átakalausar íþróttagreinar eins og t.d.golf og keilu.

 

Commotio cordis

Commotio cordis er það kallað þegar hjartastopp verður af völdum höggs yfir hjartastað. Höggið getur verið sakleysislegt og þarf ekki einu sinni að ganga langt inn í brjóstkassann til þess að valda skaðanum. Samkvæmt rannsóknum á svínamódelum þarf höggið að koma beint á hjartað. Til að framkalla slegla hraðtakt eða óreglu (sem svo veldur hjartastoppi) verður þetta að gerast 15-30msek áður en svokallaður T-takki kemur, sem er þegar endurskautun verður í rafleiðslukerfi hjartans (sem er aðeins 1% af svo kölluðum hjartsláttarhring). Eins getur þetta gerst þegar höggið kemur við afskautun í rafleiðslukerfi hjartans samkvæmt sömu rannsókn ¹. Í rannsókn frá 2002 er greint frá 128 slíkum tilfellum í BNA yfir 5 ára tímabil. Í rannsókninni er greint frá því að flest fórnarlambanna voru karlmenn (95%),undir 18ára aldri (72%), og dóu á staðnum (82%) 5.

Í flestum tilfellum gerðist þetta á auglýstum íþróttaviðburði (68%) eins og í hafnarbolta- og íshokkíleik. Höfundar rannsóknarinnar fundu það út að restin af þessum tilvikum áttu sér stað á leikvöllum við sakleysisleg högg á brjóstkassann 5. Það hefur verið lagt til að varnir leikmanna verði bættar og að hjartastuðtæki sé til staðar á íþróttaleikvöllum og bara sem víðast. Ekki er annað hægt en að velta fyrir sér áhættu markmanna í handbolta, sem eru að fá í sig bolta á yfir 100km hraða.

 

Afbrigðilegar kransæðar

Venjulega fær hjartað blóð frá vinstri og hægri kransæð. Þær koma frá sitthvorum staðnum á ósæðinni rétt fyrir ofan hjartalokuna. Stundum víxlast þetta og vinstri kransæðin kemur frá þeim stað sem sú hægri kemur venjulga frá og öfugt. Þar myndast áberandi hlykkur á slagæðinni sem getur klemmst á milli lungnaæðanna og ósslagæðarinnar við áreynslu.

Þetta leiðir til þess að skyndilega lokast fyrir blóðflæðið til vinstri slegils og getur skemmt hluta af hjartavöðvanum. Þetta er hægt að koma í veg fyrir með aðgerð en það er erfitt að greina þetta í upphafi (greinist með hjartaþræðingu).

Viðkomandi ætti að geta snúið aftur til fyrri iðkunnar að 6 mánuðum liðnum, eftir að búið hefur verið að leiðrétta gallann með aðgerð.

 

Myocarditis

Bólgusjúkdómur sem veldur skemmd í hjartavöðvanum, sem getur leitt til hjartabilunar og hjartastopps. Aðal ástæða þessa er oftast sakleysisleg vírussýking með flensulík einkenni. Það er talið að allt að 5% þeirra sem fá vírussýkingu fái einhverskonar myocarditis.Þó þetta gangi fljótt yfir og skilji ekki eftir varanlegar skemmdir, lendir hluti fólks í þrálátum vanda (krónískt myocardítis) sem getur tekið mánuði eða ár að hrista af sér. Hvoru tveggja getur sett af stað hjartsláttaróreglu sem getur valdið SCD. Þess vegna væri skynsamlegt af íþróttamönnum að æfa ekki á meðan þeir eru með einhverja vírus- sýkingu og leita læknis, sérstaklega ef það fer að bera á brjóstverk, mæði og yfirliði.

Viðkomandi ætti að geta snúið aftur til fyrri iðkunar að 6 mánuðum liðnum, að því gefnu að allar rannsóknir sýni að allt sé orðið eðlilegt.

 

Rofinn ósæðargúlpur

Flest af því unga íþróttafólki sem lendir í þessu eru með Marfan’s syndrome. Það gengur í erfðir og er þá um einskonar stökkbreytingu á bandvef að ræða. Einstaklingar með Marfans’s syndrome geta haldið áfram sinni iðkun svo fremi sem ummál ósæðarinnar er innan eðlilegra marka. Helstu líkamlegu einkenni fólks með Marfan’s eru þau, að þetta eru háir og grannir einstaklingar með langa útlimi,tær og fingur. Of hreyfanlegir liðir, hryggskekkja, óvenju hár gómbogi og léleg sjón. Þeir sem búa við þennan áhættuþátt, ættu að geta tekið þátt í meðal erfiðum íþróttagreinum, svo lengi sem það er engin saga í ættinni um SCD og ummál ósæðar er innan öruggra marka.

 

Aðrar orsakir

Fleira orsakar SCD hjá ungu fólki en það sem nú er upptalið. Þó að fæðingargallar séu helsta orsökin eru það aðrir hlutir eins og slæmt astmakast eða hitaslag sem leggja lóð á vogaskálarnar. Ýmis örvandi efni sem notuð eru líkt og amfetamín og kókaín eru að koma sterkari inn nú á síðustu árum. Af greindum tilfellum eru c.a.2% af óþekktum orsökum ².

 

Hvað er til ráða?

Á Ítalíu hefur verið skimun og eftirlit með ungu íþróttafólki hvað lengst, enda státar Ítalía af lægri tíðni en gengur og gerist í öðrum löndum. Þeir eru bæði með læknisskoðun,mælingar og yfirheyrslu á ákveðnum spurningalista . Í BNA hafa menn byrjað samskonar skimun, en hefur hún legið undir ámæli vegna þess að það eru ekki gerðar kröfur um að það séu læknar,hjúkrunnarfræðingar eða sjúkraþjálfarar sem framkvæmi slíka skoðun. Á Englandi er einnig skimun í gangi og mikið gert úr því starfi sem þar er unnið. Frægir einstaklingar hafa tekið það að sér að vera verndarar þessara samtaka og vekja þannig athygli á þessu þarfa starfi.

Með því að fjölga hjartastuðtækjum á opinberum stöðum, lögreglubílum, leikvöllum og íþróttaleikvöllum er mikið forvarnarstarf unnið og hafa þau mál verið mjög til batnaðar hér. Annað sem hefur verið í umræðunni erlendis er að auka verjur í þeim íþróttum sem um ræðir, eins og íshokkí og hafnarbolta. Þá er verið að ræða um brynju beint yfir hjartanu til að koma í veg fyrir Commotio Cordis, en eins og er hefur ekkert komið á markaðin sem er nógu áhrifaríkt.

Eins og sjá má erum við eftir á sumum sviðum hvað þessi mál varðar, en vonandi verður tekið á þeim í náinni framtíð.

 

Heimildir:

1. Maron BJ, M.D.Sudden death in young athletes. New Eng J Med 2003;349:1064-75

2. Maron BJ, Shirani J, Poliac LC, Mathenge R, Roberts WC,Mueller FP. Sudden death in young competitive athletes: clinical, demographic and pathological profiles 1996; JAMA 276:199-204

3. Glower DW, Maron BJ. Profile of reparticipation cardiovascular screening for high school athletes 1998; JAMA 279:1817-9

4. S Firoozi, S Sharma, WJ Mackenna. Risk of competitive sport in young athletes with heart disease. Heart 2003; 89:710

5. Maron BJ,Goham TE, Kyle SB, Mark Estes NA, Link MS. Clinical profile and spectrum of commotion cordis. JAMA 2002;287:1142-6

6. http://www.c-r-y.org.uk/index.htm

 

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari

 

Hversu mikla hreyfingu þarft þú?

Hluti af starfi mínu er að komast að því hversu mikla hreyfingu fólk stundar og gefa ráðleggingar út frá því.

Margir segjast fá mikla hreyfingu úr vinnunni og telja það nóg, en átta sig ekki á því að þeir eru ekki að hreyfa sig nógu lengi í einu til að njóta einhvers ávinnings af hreyfingunni. Á vef Lýðheilsustöðvar kemur fram að æskilegt sé að fullorðnir hreyfi sig minnst 30 mínútur á dag (sem má svo skipta niður í 10-15 mínútur í senn). Þess utan ættu þeir að hreyfa sig 20-30 mínútur minnst tvisvar í viku af mikilli ákefð til að viðhalda og bæta enfrekar þoli, vöðvastyrk, liðleika, jafnvægi og beinheilsu (www.lydheilsustod.is).

Eftir víkkun á kransæð er ráðlagt að byrja á að ganga 15 mínútur 2-3 sinnum á dag og bæta við 1-2 mínútum daglega á meðan á meðan hjartað er að jafna sig og aðlaga sig.

Eftir hjartaáfall er ráðlegt að byrja á að ganga 10 mínútur 2-3svar á dag og bæta við 1-2 mínútum daglega. Það fer að sjálfsögðu eftir alvarleika áfallsins hversu menn eru fljótir að ná sér, en það getur tekið hjartað 6-8 vikur að gróa sára sinna.

Ganga og hlaup er ódýrasti mátinn við að þjálfa sig upp og er því vinsælasta formið meðal almennings. Við nútímamenn sem eyðum bróðurparti af degi okkar sitjandi, þróum með okkur marga óvana sem beint og óbeint hafa áhrif á stoðkerfi okkar. Þá er það helst slæm setstaða við vinnuna og langar setur án þess að breyta um stellingar. Þegar við svo loks tökum okkur til og drýfum okkur út að ganga eðahlaupa, koma þessir slæmu ávanar í bakið á okkur. Allskonar kvillar fara að gera vart við sig, eitt leiðir af öðru og brátt eru það stoðkerfis vandamál sem farin eru að eyðileggja áætlanir okkar um heilbrigðara líferni og aukna hreyfingu.

Dæmigerð setstaða fyrir framan tölvuskjáinn er að húka í sætinu með bogið mjóbak. Þá hallar mjaðmagrindin aftur og eðlileg sveigja sem á að vera á mjóbakinu hverfur. Þessi slæma setsaða getur valdið því að liðbönd og vöðvar togna eða lengjast. Ef hún er viðvarandi og tauga- og bandvefur aðlagast verður erfitt að snúa ferlinu við. Þessu ástandi fylgja verkir vegna smá skaða á taugum,vöðvum og sinum sem styðja hryggsúluna. Liðbrjóskið á milli hryggjaliðanna, sérstaklega í brjóstbaki, getur liðið fyrir þessa stöðu þar sem það pressast saman að framan, en tognar að aftan. Með tímanum veldur þetta hrörnun á liðbrjóskinu og getur jafnvel valdið útbungun á brjóski sem svo þrýstir á mænuna. Þetta skilar sér líka í lélegri líkamsstöðu sem getur framkallað ýmsa kvilla vegna þess að ganglimirnir hreyfast ekki eftir ákjósanlegum hreyfiferlum. Vöðvar sem tengja mjaðmagrindina við lærlegginn breytast þ.e.styttast eða lengjast og geta rifnað.

Næst ætla ég að taka fyrir einn þessara vöðva sem er orsök margra kvilla sem herja á göngufólk og hlaupara.

 

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari

 

Lítill en mikilvægur

Gluteus medius (GM) er lítill vöðvi sem minnir á blævæng. Breiði hlutinn festist á utanverðan mjaðmaspaðan en sinin þ.e.mjói hlutinn festist á toppinn eða hnjóskinn á lærleggnum. Þessi litli vöðvi gegnir því mikilvæga hlutverki að halda okkur beinum þegar við stöndum í annan fótinn, sér í lagi á göngu og passar að mjöðmin sveiflast ekki út til hliðar. Ef þessi vöðvi verður of langur eða máttlítill geta ýmis vandamál farið að láta á sér kræla. Margir íþróttamenn hafa fallið úr leik af hans völdum,því að til hans hafa menn rakið meiðsl á; fremra krossbandi, “hlauparahné”(iliotibial band syndrome), verki á bakvið hnéskel (patellafemoral pain), ökklameiðsl og bólgur á hælsin.(achilles tendinotathy) ¹.

En hvað veldur því að hann verður of langur,slakur og máttlaus? Hægt er að telja upp allavega þrjár algengar ástæður fyrir því:

Læknisfræðilegar:Tognun eða slit á snúningsvöðvum mjaðma,eða meðfætt liðhlaup í mjöðm.

Vani: Að hafa þungann alltaf á sama fæti í hvíldar stöðu og skjóta mjöðminni út til hliðar. Þannig slaknar og lengist á GM og aðfærsluvöðvarnir í innanverðu lærinu styttast.

Svefnvenjur: Að sofa alltaf á sömu hlið og hafa efri fótinn beygðan, liggjandi framfyrir neðra hnéð. Þannig liggja menn löngum stundum og því lengist á GM og hann veikist (gott er að hafa kodda á milli fóta til að koma í veg fyrir þetta).

Í nýlegri rannsókn sem framkvæmd var í Brasilíu, létu vísindamenn hóp fólks sem var með verki á bak við hnéskelina gera sérhæfðar æfingar fyrir hliðlæga snúningsvöðva mjaðma og fráfærsluvöðva mjaðma (þ.m.t. GM) samhliða styrktaræfingum fyrir framanlærisvöðva í sex vikur. Samanburðarhópurinn (líka með verki undir hnéskel) framkvæmdi bara æfingar fyrir framanlærisvöðva,líka í sex vikur. Niðurstöður sýndu greinanlegan mun á lífskjörum og minni verki hjá hópnum sem framkvæmdi sérhæfðu æfingarnar ².

Önnur rannsókn sýndi fram á samband máttlítilla GM og verkja í hæl. Rannsakendur fundu það út að langhlauparar sem voru með þrálátar bólgur í hælsin voru með skemmri hreyfiferil í hné (frá því að hæll kemur í jörð og að miðstöðu). Eins var áberandi hve seint kviknaði á þeim vöðva (tibialis anterior) sem átti að bremsa fremri hluta fótar af við að mæta undirfletinum. GM og beini lærvöðvinn voru líka með lélegri virkni samkvæmt vöðvriti eftir að hællinn kom í jörðina hjá þeim sem voru slæmir af hælsina bólgum. Þessar niðurstöður benda á að breyting á liðferlum hnés og léleg starfsemi í ofan greindum vöðvum séu tengd hælsina bólgum í langhlaupurum. Það kom einnig fram í þessari rannsókn að með því að styrkja GM var hægt að minnka þá verki sem fylgja þessari sinabólgu. Þannig að sjá má á þessu að aukalegar styrktaræfingar fyrir GM er bara til góða fyrir alla þá sem stunda hlaup eða íþróttagreinar sem leggja mikið upp úr hlaupum.

 

Gluteus medius

 

1. Strength & Conditioning Journal:

October 2008 – Volume 30 – Issue 5 – pp 41-53

Gluteus Medius: Applied Anatomy, Dysfunction, Assessment, and Progressive Strengthening

Presswood, Laura1; Cronin, John PhD2,3; Keogh, Justin W L PhD3; Whatman, Chris MAppSc3

 

2. Clin Rehabil 2008; 22; 1051

The effect of additional strengthening of hip abductor and lateral rotator muscles inpatellofemoral pain syndrome:

a randomized controlled pilot study

Rodrigo Bezerra de Menezes Reiff and Fábio Viadanna Serrão

Theresa Helissa Nakagawa, Thiago Batista Muniz, Rodrigo de Marche Baldon, Carlos Dias Maciel,

 

3. Br J Sports Med 2009 Apr;43(4):288-92. Epub 2008 Oct 23.

Biomechanical variables associated with Achilles tendinopathy in runners.

Azevedo LB, Lambert MI, Vaughan CL, O’Connor CM, Schwellnus MP.

 

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari

Gluteus Medius!

Sjúkraþjálfarar hafa á takteinunum ýmis próf til að finna út veikleika í stoðkerfinu. Okkur er líka kennt að skoða og taka eftir því sem stingur í augun í hreyfingum og líkamsburði fólks.Og held ég að það sé þannig varið með flest okkar að við erum alltaf að greina fólk hvar sem við erum. Hvort heldur er göngulag, hlaupalag, líkamsstöðu eða líkamsburð.

Þetta getur verið vandræðalegt þegar veikur Gluteus Medius á í hlut.

Veikleiki í GM (af hvaða völdum sem það er ) kallar á einkennandi göngulag og líkamsbeitingu eða viðbrögð líkamans við vandanum.

Þar má fyrst telja upp svo kallað Trendelenburg gait, en þá dettur gagnstæð mjöðm stöðufótar niður í göngu(dilla mjöðmum). Svo er það Gluteus medius gait, en þar sveiflast efri hluti líkamans til hliðanna yfir mjöðmina á stöðu fætinum (kjaga)¹. Í þriðja lagi er það þegar hnén renna inn fyrir miðlínu (kiðfætta stöðu hnjáliðar) og svo andstæðan (hjólbeinótta stöðu hnjáliðar). En þetta er ekki alveg klippt og skorið, þannig að hægt er að sjá blöndu af þessu í mörgum tilvikum.

Hvert þessara viðbragða veldur álagi á öðrum líkamshlutum og getur framkallað önnur stoðkerfis vandamál. Í grein sem var birt í Journal of Strength and Conditioning í Október 2008 var góð yfirlitsgrein um GM skrifuð af hópi sérfræðinga frá Nýja Sjálandi.

Í yfirlitsgrein sinni sjóða þeir saman æfingaáætlun úr nokkrum fræðigreinum í þremur áföngum, sem saman standa af vel þekktum æfingum sem verða erfiðari og meira krefjandi. Allt miðast þetta við að auka hreyfistjórnun, úthald og styrk. Þeir mæla með mörgum endurtekningum til að byrja með. Þegar tækni við framkvæmd er ásættanleg að mati sjúkraþjálfara, er farið yfir í næsta áfanga.

Í fyrsta áfanga eru æfingar án þyngdar, eins og “skelfiskur” sem er framkvæmd í hliðarlegu með hnén í 90°,síðan á að glenna í sundur hnén án þess að velta mjöðm aftur eða láta fætur missa kontakt, standa á öðrum fæti og færa lausa fótin endurtekið út til hliðar og passa að tær vísi fram. Í öðrum áfanga færast æfingarnar yfir í að vera þungaberandi æfingar sem reyna á jafnvægið, eins og fótspyrna á öðrum fæti, hnébeygja á öðrum fæti á kassa og lausi fóturinn vísar fram, eða þá með lausa fótinn fyrir aftan upp á bekk (gert með eða án handlóða). Í þriðja áfanga eru æfingar sem nýtast “sjúklingi” í sinni íþrótt, eins og að standa á öðrum fæti á óstöðugu undirlagi og henda eða sparka bolta í vegg².

Það getur verið líka verið slæmt að hafa stuttan og stífan GM, en þá er annað uppá teningnum. Meira um það seinna.

 

1.Joint Structure & Function. A Comprehensive Analysis. Pamela K.Levangie, Cynthia C.Norkin.

2.Gluteus Medius: Applied Anatomy, Dysfunction, Assessment, and Progressive Strengthening. Strength and Conditioning Journal, 30 (5), 41-53 Presswood L, Cronin J, Keogh J, Whatman C (2008).

 

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari

Gluteus medius/minumus syndrome(GMS)

Almennt er það talið svo að ef að vöðvi er einhverja hluta vegna stuttur og stífur, sé það vegna þess að hann sé undir álagi einhæfrar vinnu, ósamræmi í vinnuframlagi annara aðlægra vöðva, eða álags vegna áunnins vana (*léleg líkamsstaða,svefnvenjur,hvíldar staða). Ef þannig er fyrir komið er líklegt að viðkomandi vöðvi sé búin að vera að gefa frá sér merki í formi staðbundins sársauka eða sársauka sem kemur fram í vefjum í kring, svokallaður “referral pain”. Ef maður gerir ekkert í málunum getur rifnað upp úr vöðvanum eða hann slitnað.

Gluteus medius er líkt og aðrir vöðvar hvað þetta varðar, nema vegna staðsetningar sinnar reynist það oft erfitt að festa fingur á að um svo kallað Gluteus medius/minimus syndrome(vegna legu vöðvana er ástandið kennt við báða vöðva,stundum í sitthvoru lagi) sé að ræða, því að verkir í mjöðm geta stafað af hinum ýmsum ástæðum. Þessir verkir eru almennt kenndir við Stóru hnjótu eða Greater trochanter pain syndrome (GTPS) og er algengt að sjúkraþjálfarar fá beiðni frá lækni sem hljómar upp á það.

Greining hefur orðið betri með aukinni þekkingu á líffærafræðinni og sjúkdómafræðinni á þessu svæði, með betri greiningar tækni eins og t.d.speglun.

Það þarf að útiloka hluti eins og Belgbólgu (bursitis),Glefsin mjöðm (external coxa saltans), álags brot eða Sciatica (taugaklemma). Með auknum skilningi á einkennum, líkamsskoðun og með rannsóknum (röntgen,MRI), verður meðferð auðveldari fyrir heilbrigðisstarfsmanninn sem sinnir sjúklingnum að greina á milli.

Þó að oftast sé hægt að meðhöndla vandamálið án aðgerðar, getur aðgerð leyst vandan í eitt skipti fyrir öll ¹.

GMS er mjög algengt meðal langhlaupara og lýsir sér sem þungur verkur sem liggur djúpt í rassvöðvunum, sem getur sent geisla út til annara staða í líkamanum s.s.mjóbaks,nára,læris eða fótar 4. Verkurinn batnar ekkert frekar við hvíld, en er oft verstur við snöggar og óvæntar hreyfingar.

Rannsókn með MRI, sýndi fram á það að af 24 einstaklingum með GMS, voru níu sem voru með Glut.Med. tendoitis (sinabólgur), hjá fimm hafði rifnað upp úr vöðvanum, sex voru með hvorutveggja þ.e.tendonitis og rifna vöðvaþræði, þrír reyndust vera án sjáanlegra ástæðna, og einn var með drep í vöðva vegna blóðþurrðar².

Meðferð fellst í því að bæta líkamsstöðu,líkamsvitund og brjóta upp leiða ávana hvað það varðar*. Í bráða ástandi byrjar meðferð oft með kælingu (kælipoka) og hvíld frá íþrótta iðkun og menn hafa jafnvel notað staf til að létta álagi af vöðvunum. Síðan er farið yfir í t.d. hljóðbylgjur, trigger-punkta meðferð, myofacial release. Að öðru leiti byggist meðferðin aðallega upp á sérhæfðum styrktar- og teygjuæfingum, sem byrjað er á eftir bráða ástand er yfirstaðið³. Það skiptir máli að vera ekki að ana af stað út í íþrótta iðkun fyrr en sjúkraþjálfari telur að meðferð sé lokið. Ég læt fylgja með mínar uppáhalds teygju æfingar fyrir þessa vöðva, sem og hjálparvöðva þeirra.Myndirnar eru úr þeirri góðu bók Stóru Teygjuæfingabókinni eftir Kristian Berg.

 

1. Eric J.Strauss, MD, Shane J.Nho, MD,MS, and Bryan T.Kelly,MD. Greater Trochanter Pain Syndrome Sports Med Arthrosc Rev.Volume 18,Number 2, June 2010.

2. Bird,P.A., et al. Prospective evaluation of magnetic resonance imaging and physical examination findings in patients with greater trochanteric pain synrome. Arth and Rheum,,Vol. 44, No. 9, Sept.2001, 2138-2145.

3. Dennis C.Bewyer,PT, Kathryn J.Bewyer,MBT. Rationale for treatment of hip abductor pain syndrome.The Iowa Orthopaedic Journal.Vol.22 57-60

4. Ian G.MacIntyre BSc,DC,CSCS. Gluteus Minimus Referral Pattern:An All Too Often Misdiagnosed Cause of Lateral Leg Pain in Runners. A Case Series.

www.sportsperformancecentres.com/.

 

Sá vínrauði – piriformis

Sá vínrauði - piriformis

Gluteus medius er rauður, Piriformis heitir sá vínrauði. Upphafs staða fyrir báðar vöðva teygjur.
Teygja fyrir Gluteus medius

Gluteus medius teygja

Teygja fyrir Piriformis.

Piriformis teygja

Piriformis nánari útfærsla

Nánari útfærsla á Piriformis teygju.
Hægt er að gera báðar vöðvateygjur úr sömu stöðu. Það þarf aðeins að breyta gráðum á horninu á því hné sem er á borðinu.

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari

Achilles tendinitis

Einn góðviðrisdag í vetur fékk ég símtal seinni partinn. Þetta var gamall vinnufélagi og áhugamaður um körfubolta. Hann var búinn að vera að stunda körfubolta einu sinni í viku með félögunum en nú var svo komið að það vantaði í liðið og fékk hann þá hugdettu að hringja í mig. Ég var laus og sló til. Þó að þolið væri ekki upp á marga fiska var þetta jafn gaman og mig minnti, þannig að ég mætti nokkrar vikur í röð.

Þá fór að bera á verk aftan á fótleggnum ofan við hælinn á stökk fætinum og leyndi sér ekki að ég var kominn með þetta þráláta fyrirbæri sem kallast á fræðimáli „Achilles tendinitis“. Ef ég hefði setið á strák mínum og tekið mark að á viðvörunarbjöllunum sem glumdu í höfðinu á mér, hefði ég farið öðruvísi að.

En akkúrat svona nálgun á íþróttaiðkun er ávísun á vandræði. Því skyndileg íþróttaástundun eftir langa fjarveru býður upp á svona niðurstöðu þ.e. Snöggir sprettir og stökk, langhlaup án mikils fyrirvara , brekku hlaup,stiga- eða fjallganga, að sleppa upphitun, stífir kálfavöðvar, hlaup á hörðu eða ójöfnu undirlagi, slæmir íþróttaskór og líffræðilegir gallar á fæti, eins og flatfótur.

Þetta vandamál er mjög algengt og sér í lagi hjá miðaldra íþróttamönnum. Ef menn þjösnast áfram, getur farið svo að ástandið versni og fari yfir á næsta stig „Achilles tendinosis“ og getur svo farið að hásinin trosni upp og slitni.

Einkennin eru eins og fyrr segir; verkur aftan á fótleggnum fyrir ofan hæl, sér í lagi eftir íþrótta iðkun, aukinn sársauki eftir langhlaup og spretti, eymsl og stirðleiki á morgnana, væg bólga eða hnúður á sininni, brak við snertingu eða hreyfingu á sininni og mátt minnkun í fæti.

Best er að fara til læknis sem fyrst áður en til vefjaskemmda kemur eða að sinin slitni.

Á meðan þú bíður eftir að komast að hjá lækni skaltu hætta íþróttaiðkun sem kallar fram sársauka og hvíla. Vefja með teygjubindi (stuðnings sokkar hjálpuðu mér) og kæla svæðið með íspoka (ekki lengur en 20 mínútur í senn og aldrei á bera húð) og hvíla fótinn í hálegu. Taka bólgueyðandi lyf og fara að huga að því að breyta um æfinga rútínu.

Þegar bráðastigi er lokið, er hægt að fara að huga að endurhæfa fótlegginn. Alfredsons 180 formúlan hefur virkað vel þegar aðrar aðferðir hafa ekki gefið árangur.

Hún fellst í því að standa á tábergi á t.d.tröppubrún á veika fætinum og slaka hælnum hægt niður fyrir brúnina. Þetta er gert 2 x á dag, 3 x15 skipti með hnéð rétt, og 3 x15 með hnéð bogið. Þannig að þetta verða 180 endurtekningar á dag, alla daga vikunnar. Þegar hægt er að framkvæma æfinguna án sársauka með eigin líkamsþyngd, skal bæta við þyngd með því að taka sér lóð í hönd og halda áfram að æfa þar til sársauki er ekki til staðar. Þá að fá sér þyngra lóð og endurtaka rútínuna og auka þannig þyngdina koll af kolli. Hámarks viðbótar þyngd væri 60 kg.

Ég fylgdi þessum ráðum og er nú laus við þennan „fjanda“.

 

1. Alfredson H, Lorentzon R Chronic Achilles tendinosis: recommendations for treatment and prevention. Sports Med 2000, 135-46

 

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari

 

Ákefðarþjálfun sem leiðir til Rhabdomyolysis eða Rákvöðvalísu

Fyrir nokkur fékk ég símtal frá Nýrna- og meltingadeild út af sjúklingi sem var að leggjast inn. Þetta var ekki týpískur sjúklingur af þeirri deild. Þetta var ungur maður sem stundaði bæði Crossfit og útihlaup, sem hafði örmagnast í víðavangshlaupi. Sjúkdómsgreiningin var Rhabdomyolysis eða Rákvöðvalýsa, nánar tilekið Acute exertional Rhabdomyolysis (AER). Þetta er hættulegt ástand sem getur valdið dauða (1)

Þegar ég var að keppa í íþróttum á árum áður, þá var greinilegur munur á milli okkar sem vorum að æfa fyrir keppni og þeirra sem hreyfðu sig reglulega til að viðhalda góðri heilsu. Nú finnst mér lögð mikil áhersla á að selja almenningi það að hann þurfi að vera í keppnisformi,þ.e. að hann eigi að æfa eins og afreksmaður í íþróttum. Ég get ekki séð hvernig það eigi að gagnast Jóni sem vinnur á skrifstofunni eða Gunnu sem er heimavinnandi húsmóðir í því sem þau gera, því það er ekki á allra færi að hlaupa maraþon eða stunda herþjálfun. En þetta er mín skoðun og skal skoðast sem slík.

 

Af öllum spendýrum jarðar þá eru það aðeins menn (og hestar) sem geta lent í því að fá Rákvöðvalýsu.Það eru nánast eingöngu karlmenn sem lenda í þessu.

Þetta ástand skapast þegar himnan utan um vöðvafrumurnar hjá heilbrigðum einstakling brotnar niður vegna of mikillar ákefðar í æfingum og innihald vöðvafrumanna lekur út í blóðið. Eccentric vöðvasamdráttur eða lengjandi vöðvasamdráttur setur einstaklega mikið álag á vöðvahimnuna miðað við styttandi vöðvasamdrátt (concentric).Þá er vöðvinn að reyna að dragast saman í lengingu,þ.e. að bremsa af hreyfingu t.d. beygju hnés þegar gengið er niður fjall. Eins er lengjandi vöðvasamdráttur í gangi í hlaupum þ.e. í hvert sinn er fótur hlauparans lendir á jörðinni.

 

Það eru fleiri orsakir fyrir Rhabdomyolisis eins og eiturefni, eiturlyf, lyfseðilsskyld lyf(t.d. statin hjartalyf), háhraða áverkar (árekstur bíla), ef vöðvar klemmast undir þungu fargi(hrun og húsarústir eftir t.d. jarðskjálfta), þriðju gráðu bruni, rafmagnssjokk, öfgar á hitastigi, blóðþurrð í vöðvum, sjúklegt langtíma hreyfingarleysi, sýkingar, brenglun á söltum og steinefnum, genagallar, gallar í bandvef og aðrar bæði þekktar og óþekktar ástæður (2).

AER getur valdið bráðri nýrnabilun sem gerist í 5-16.5% tilfella samkvæmt tölum frá USA og beinni nýrnaeitrun vegna „ferrihemate“ sem myndast eftir niðurbrot á míoglóbíni í nýrum. AER lýsir sér helst í vöðvaverkjum, máttleysi í vöðvum og dökkbrúnu þvagi (Te litað). Á sjúkrahúsi er það oftast greint með hækkuðu CK (ensím) og kalíum í blóði, sem og dökku þvagi (myoglobinuria) (3).

AER hefur verið tengt íþróttagreinum sem eru mjög krefjandi á líkamann, eins og Maraþon- og ultramaraþonhlaupi, þríþraut og herþjálfun.

Þegar ég fór að viða að mér fræðigreinum um AER, tók ég eftir því að mjög mikið af greinunum voru tengdar herþjálfun og gat ég ekki annað en velt því fyrir mér hvort að aukning á AER á íslandi (skv.upplýsingum frá lækni sem ég átti samtal við) tengist aukningu á þjálfunarstöðvum og þjálfunaraðferðum sem eru byggðar upp á svipaðan hátt og herþjálfun sbr.Boot-camp og Crossfit. Eru Íslendingar kannski að taka heilsuræktina skrefinu lengra en æskilegt er, eins og við gerum með flest annað sem við tökum okkur fyrir hendur?

Í rannsókn sem framkvæmd var á 25 þríþrautarmönnum sem voru rannsakaðir í keppni, kom í ljós að allir voru þeir með hátt hlutfall af míóglóbíni í blóði, sem benti til þessað töluvert magn vöðvafruma hefðu brotnað niður (4).

Fylgst var með 44 ultramaraþonhlaupurum (99-K) og þar af voru 25 hlauparar sem voru með of mikið míóblóbín í blóðinu (5).

Í tilraun sinni til að koma mönnum í bardagahæft form sem fyrst, þróuðu sjúkraþjálfarar í hernum endurhæfingaráætlun sem þeir prófuðu á 10 hermönnum sem voru með AER. Þar kom fram að þátttakendur höfðu staðið sig illa í ástandsskoðun hersins og flokkuðust undir að vera í lélegu eða sæmilegu formi (6).

 

Í tilfelli unga mannsins sem ég hitti á deildinni,þá hafði hann verið að hlaupa víðavangshlaup í miklum hita og sól á vegaslóða sem lá upp og niður töluvert háar brekkur og hafði hann lagt áherslu á að fara hratt niður brekkurnar. Við þessar aðstæður eru miklar líkur á að íþróttafólk fái AER, því að þarna blandast saman mikill hiti, vökva- og steinefna skortur og mikið eccentric álag á stóru vöðvana í fótleggjunum.

 

En hver er þá niðurstaðan í þessum hugleiðingum mínum? Að menn ættu ekki að stunda Boot camp eða æfa maraþonhlaup af því að það er hættulegt? Nei hreint ekki! Ég er mjög hlynntur fjölbreytni í heilsurækt en líkami okkar þarf að endast okkur út lífið. Ég hef séð það oftar en einu sinni í mínu starfi hvernig menn sem æfðu og kepptu á afreksstigi íþrótta voru orðnir eins og farlama gamalmenni á milli fimmtugs og sextugs.

Mín ráð til þeirra sem velja sér slíka ákefðarþjálfun eru að hafa varann á og fylgja einföldum reglum varðandi æfingar þá á að vera hægt að komast hjá því að lenda í Rákvöðvalísu. Eftirfarandi þumalputtareglur er gott að hafa til hliðsjónar:

 

-Drekka nóg á æfingum og í keppnum.

-Ekki taka erfiða æfingu í miklum hita.

-Ekki gera of mikið þó menn séu vel upplagðir(halda sig við áætlun).

-Ekki mikið eða langvarandi eccentric álag(t.d.jump-squat,brekkuhlaup).

-Ekki byrja að æfa af mikilli ákefð eftir erfiðar sýkingar.

-Ég mæli ekki með því að fara óundirbúinn í erfiða þjálfun, heldur vera búinn að þjálfa sig upp heima svo að sjokkið verði ekki of mikið á líkamann, sbr. nýliðar í hernum í USA og algengi AER í þeirra herbúðum.

 

1. Kukla TR,Tis JE,Moores LK,Schaefer RA. Fatal rhabdomyolysis with bilateral gluteal,thigh,and leg compartment syndrome after the Army Physical Fitness Test. A case report. Am J Sports Med. 2000:28(1)pp112-116.

2. Rhabdomyolisis :a review of the literature. F.Y.KHAN.The Netherland journal of Medicine, Okt.2009,Vol.67,NO 9 pp272-283.

3. Diagnosis and Treatment of Acute Exertional Rhabdomyolysis,Richard E.Baxter,PT,DSc,OCS,ATC,and Joseef H.Moore,PT,PhD,SCS,ATC.Journal of Orthopaedic & Sports Physical Therapy.Volume 33,Number 3,March 2003,104-108.

4. Rhabdomyolysis, Myoglobinuria,and ExerciseMilne CJ Wairua Medicine, Hamilton, New Zealand.Sports Medicine (Auckland, N.Z.) [1988, 6(2):93-106].

5. Myoglobin,rhabdomyolysis, and marathon running, Quarterly Journal of Medicine,vol.188,pp.463-472,1978 HAROLD B. SCHIFF,EAMONN T. M. MACSEARRAIGH and JEFFREY C. KALLMEYER.

6. Rehabilitation of Ten Soldiers with Exertional Rhabdomyolysis. CPT Terry Randall,SP USA.CPT Nikki Butler,SP USA. MILITARY MEDICINE, 161,9:564-566,1996.

 

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari

Misnotkun lyfja

„Betri er krókur en kelda“ er eitthvað sem flest allir hafa heyrt að minnsta kosti einu sinni um ævina. En þegar menn snúa dæminu við og velja kelduna frekar en krókinn, eru menn oftar en ekki í slæmum málum. Lyf til að auka getu og bæta árangur hafa verið notuð allt frá örófi alda sbr.víkingar notuðu berserkja-sveppi til að ganga betur í orustu, og keppendur á fyrstu ólympíuleikum notuðu sérstakt fæði til að bæta árangur eins og t.d. þurrkaðar fíkjur. Egyptar þurrkuðu og muldu hófa af asna til að bæta frammistöðu sína. Þannig mætti lengi telja.

Í dag er strangt eftirlit með misnotkun lyfja í íþróttakeppnum og ótal mörg lyfseðils skyld lyf eru á lista sem ólögleg lyf. Sem starfsmaður á hjartadeild LSH ber mér að þekkja algengustu hjartalyfin og virkni þeirra. Allavega tvennskonar hjartalyf hafa verið misnotuð í keppnisíþróttum,en það eru lyf sem hægja á hjartslætti og lyf sem eru þvaglosandi. Betablokkarar eru lyf sem hægja á hjartslætti og hafa verið notuð af keppnisfólki t.d. í skotfimi eða bogfimi til að bæta hittnina. Þvaglosandi lyf eru notuð af bardagaíþróttafólki til að ná sér niður í réttan flokk,eða aflíkamsræktar fólki sem þarf að skera sig svo mikið niður að vöðvar og vöðvaþræðir verði sýnilegir 1. Eins hafa hægðalosandi lyf verið notuð til þess sama .

Eins sorglegt og það nú er þá þykir það orðið sjálfsagt mál að nota lyf til að komast á stall við Schwartseneggera nútímans og heyrir maður steranotkun rædda eins fjálglega í pottum almennings sundlauga og hvað á að vera í kvöldmat, af 16 ára drengjum sem eru með jafn mikið húðslit á upphandleggjunum og nýbökuð móðir er með á maganum.

Annað sem er alveg jafn sorglegt er þegar ungar konur nota þvag- og eða hægðalosandi lyf til að grenna sig (sem er skamm góður vermir) líkt og fyrirmynd hreysti og fegurðar, á stalli í Fitness keppni. Því miður þykir þetta líka svo sjálfsagt mál að sumir einkaþjálfarar eru farnir að mæla með þessu. Fitubrennsluefni sem innihalda ephedrin þykja einnig sjálfsögð af öllum sem þurfa að losna hratt við þyngd.

Ég hef fengið að kynnast alvarlegum afleiðingum þessarar lyfja misnotkunar í starfi mínu og horft á foreldra,systkini,maka og börn ungs fólks með framtíðina fyrir sér, eyðilögð eftir heimsóknir til sinna nánustu sem eru því sem næst í „grænmetis“ ástandi.

Ungur maður sem var á kafi í líkamsrækt og notaði ephedrin fitubrennsluefni, lenti í hjartastoppi. Hann missti málið,getuna til að kyngja og að hreyfa sig vegna súrefnisskorts til heilans. Ég man ennþá eftir svipnum á fólkinu hans fyrir utan herbergið eftir að hafa horft á hann slefandi og fjarrænan í sjúkrarúminu. Hann þurfti að læra að tala upp á nýtt og varð ekki sama persónan eftir þetta.

Ung móðir sem stundaði líkamsrækt, heltekin af sinni líkamsþyngd hafði misnotað þvag- og hægðalosandi lyf til að ná af sér þyngd, þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir. Hún lenti í hjartastoppi vegna brenglunnar á steinefnum og missti mál, sjón og getuna til að hreyfa sig vegna súrefnisskorts til heila. Sumir aðstendur hennar þurftu áfallahjálp til að komast yfir það að horfa á þessa ungu konu læsta í spastískum stellingum, algjörlega ósjálfbjarga. Hún á langa vegferð fyrir höndum til að verða sjálfstæður og virkur einstaklingur. Hér eru svo nokkur sorgleg dæmi erlendis frá um misnotkun á þvagræsilyfjum.

Árið 1988, hrynur atvinnu líkamsræktar keppandinn Albert Beckles niður á sviði. Það tókst að lífga hann við og kom í ljós að hann þjáðist af ofþornunn vegna þvagræsilyfja.

Árið 1992, lést atvinnu líkamsræktar keppandinn Mohammed Benaziza eftir keppni í Evrópu. Krufning leiddi í ljós hjartaáfall vegna ofþornunar. Hann var 33 ára. Hann hafði notað blöndu af þvagræsilyfjum fyrir sýninguna.

Árið 1994, fékk atvinnu líkamsræktar keppandinn Paul Dillett, að því er virtist, magakrampa á sviðinu í Arnold Classic mótinu. Enn og aftur var vandamálið ofþornunn og ójafnvægi á blóðsöltum vegna notkunar á Lasix (þvagræsilyf). Hann lifði af.

Þá var það einnig árið 1996 að Andreas Munzer, þekktur fyrir „hrikalegt“ útlit, lést eftir að lifur og nýru gáfust upp. Krufningin leiddi í ljós alvarlega brenglun á blóðsöltum.

Í nóvember 2011, lést 29 ára gamall sýrlenskur líkamsræktar keppandi, Mahmoud Ibrahim Alhdidi, þegar hann tók þátt í heimsmeistaramóti karla í Amateur Bodybuilding í Mumbai, úr hjartaáfalli vegna ofþornunar.

Í júní 2011 lést Viorel Ristea þekktur rúmenskur líkamsræktar atvinnumaður, aðeins 29 ára gamall þegar hann var í Miami vegna Fitness Universe Weekend. Viorel Ristea eða „Schwarzenegger“ Rúmeníu eins og hann var kallaður, lést vegna ofnotkunnar þvagræsilyfja.

Ef þetta er áhættan við það að taka kelduna, þá er ég ekki í nokkrum vafa um að krókurinn er betri hvaða dag sem er. Ef fólk er að æfa undir handleiðslu þjálfara sem leggur til notkun á slíkum lyfjum,þá finnst mér ástæða til að kæra viðkomandi. Einungis læknar geta metið hvort viðkomandi þurfi á þessum lyfjum að halda og þeir einir hafa réttindi til að úthluta þeim, af því að þeir þekkja áhrif þeirra og aukaverkanir.

 

1. Michele Verroken MA(Ed), BEd (Hons) Director of ethics and anti-doping.Drug use and abuse in sport.Ballieres Clinical Endocrinology and Metabolism, Vol 14,No.1.pp1-23,2000

 

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari