Fyrir nokkur fékk ég símtal frá Nýrna- og meltingadeild út af sjúklingi sem var að leggjast inn. Þetta var ekki týpískur sjúklingur af þeirri deild. Þetta var ungur maður sem stundaði bæði Crossfit og útihlaup, sem hafði örmagnast í víðavangshlaupi. Sjúkdómsgreiningin var Rhabdomyolysis eða Rákvöðvalýsa, nánar tilekið Acute exertional Rhabdomyolysis (AER). Þetta er hættulegt ástand sem getur valdið dauða (1)

Þegar ég var að keppa í íþróttum á árum áður, þá var greinilegur munur á milli okkar sem vorum að æfa fyrir keppni og þeirra sem hreyfðu sig reglulega til að viðhalda góðri heilsu. Nú finnst mér lögð mikil áhersla á að selja almenningi það að hann þurfi að vera í keppnisformi,þ.e. að hann eigi að æfa eins og afreksmaður í íþróttum. Ég get ekki séð hvernig það eigi að gagnast Jóni sem vinnur á skrifstofunni eða Gunnu sem er heimavinnandi húsmóðir í því sem þau gera, því það er ekki á allra færi að hlaupa maraþon eða stunda herþjálfun. En þetta er mín skoðun og skal skoðast sem slík.

 

Af öllum spendýrum jarðar þá eru það aðeins menn (og hestar) sem geta lent í því að fá Rákvöðvalýsu.Það eru nánast eingöngu karlmenn sem lenda í þessu.

Þetta ástand skapast þegar himnan utan um vöðvafrumurnar hjá heilbrigðum einstakling brotnar niður vegna of mikillar ákefðar í æfingum og innihald vöðvafrumanna lekur út í blóðið. Eccentric vöðvasamdráttur eða lengjandi vöðvasamdráttur setur einstaklega mikið álag á vöðvahimnuna miðað við styttandi vöðvasamdrátt (concentric).Þá er vöðvinn að reyna að dragast saman í lengingu,þ.e. að bremsa af hreyfingu t.d. beygju hnés þegar gengið er niður fjall. Eins er lengjandi vöðvasamdráttur í gangi í hlaupum þ.e. í hvert sinn er fótur hlauparans lendir á jörðinni.

 

Það eru fleiri orsakir fyrir Rhabdomyolisis eins og eiturefni, eiturlyf, lyfseðilsskyld lyf(t.d. statin hjartalyf), háhraða áverkar (árekstur bíla), ef vöðvar klemmast undir þungu fargi(hrun og húsarústir eftir t.d. jarðskjálfta), þriðju gráðu bruni, rafmagnssjokk, öfgar á hitastigi, blóðþurrð í vöðvum, sjúklegt langtíma hreyfingarleysi, sýkingar, brenglun á söltum og steinefnum, genagallar, gallar í bandvef og aðrar bæði þekktar og óþekktar ástæður (2).

AER getur valdið bráðri nýrnabilun sem gerist í 5-16.5% tilfella samkvæmt tölum frá USA og beinni nýrnaeitrun vegna „ferrihemate“ sem myndast eftir niðurbrot á míoglóbíni í nýrum. AER lýsir sér helst í vöðvaverkjum, máttleysi í vöðvum og dökkbrúnu þvagi (Te litað). Á sjúkrahúsi er það oftast greint með hækkuðu CK (ensím) og kalíum í blóði, sem og dökku þvagi (myoglobinuria) (3).

AER hefur verið tengt íþróttagreinum sem eru mjög krefjandi á líkamann, eins og Maraþon- og ultramaraþonhlaupi, þríþraut og herþjálfun.

Þegar ég fór að viða að mér fræðigreinum um AER, tók ég eftir því að mjög mikið af greinunum voru tengdar herþjálfun og gat ég ekki annað en velt því fyrir mér hvort að aukning á AER á íslandi (skv.upplýsingum frá lækni sem ég átti samtal við) tengist aukningu á þjálfunarstöðvum og þjálfunaraðferðum sem eru byggðar upp á svipaðan hátt og herþjálfun sbr.Boot-camp og Crossfit. Eru Íslendingar kannski að taka heilsuræktina skrefinu lengra en æskilegt er, eins og við gerum með flest annað sem við tökum okkur fyrir hendur?

Í rannsókn sem framkvæmd var á 25 þríþrautarmönnum sem voru rannsakaðir í keppni, kom í ljós að allir voru þeir með hátt hlutfall af míóglóbíni í blóði, sem benti til þessað töluvert magn vöðvafruma hefðu brotnað niður (4).

Fylgst var með 44 ultramaraþonhlaupurum (99-K) og þar af voru 25 hlauparar sem voru með of mikið míóblóbín í blóðinu (5).

Í tilraun sinni til að koma mönnum í bardagahæft form sem fyrst, þróuðu sjúkraþjálfarar í hernum endurhæfingaráætlun sem þeir prófuðu á 10 hermönnum sem voru með AER. Þar kom fram að þátttakendur höfðu staðið sig illa í ástandsskoðun hersins og flokkuðust undir að vera í lélegu eða sæmilegu formi (6).

 

Í tilfelli unga mannsins sem ég hitti á deildinni,þá hafði hann verið að hlaupa víðavangshlaup í miklum hita og sól á vegaslóða sem lá upp og niður töluvert háar brekkur og hafði hann lagt áherslu á að fara hratt niður brekkurnar. Við þessar aðstæður eru miklar líkur á að íþróttafólk fái AER, því að þarna blandast saman mikill hiti, vökva- og steinefna skortur og mikið eccentric álag á stóru vöðvana í fótleggjunum.

 

En hver er þá niðurstaðan í þessum hugleiðingum mínum? Að menn ættu ekki að stunda Boot camp eða æfa maraþonhlaup af því að það er hættulegt? Nei hreint ekki! Ég er mjög hlynntur fjölbreytni í heilsurækt en líkami okkar þarf að endast okkur út lífið. Ég hef séð það oftar en einu sinni í mínu starfi hvernig menn sem æfðu og kepptu á afreksstigi íþrótta voru orðnir eins og farlama gamalmenni á milli fimmtugs og sextugs.

Mín ráð til þeirra sem velja sér slíka ákefðarþjálfun eru að hafa varann á og fylgja einföldum reglum varðandi æfingar þá á að vera hægt að komast hjá því að lenda í Rákvöðvalísu. Eftirfarandi þumalputtareglur er gott að hafa til hliðsjónar:

 

-Drekka nóg á æfingum og í keppnum.

-Ekki taka erfiða æfingu í miklum hita.

-Ekki gera of mikið þó menn séu vel upplagðir(halda sig við áætlun).

-Ekki mikið eða langvarandi eccentric álag(t.d.jump-squat,brekkuhlaup).

-Ekki byrja að æfa af mikilli ákefð eftir erfiðar sýkingar.

-Ég mæli ekki með því að fara óundirbúinn í erfiða þjálfun, heldur vera búinn að þjálfa sig upp heima svo að sjokkið verði ekki of mikið á líkamann, sbr. nýliðar í hernum í USA og algengi AER í þeirra herbúðum.

 

1. Kukla TR,Tis JE,Moores LK,Schaefer RA. Fatal rhabdomyolysis with bilateral gluteal,thigh,and leg compartment syndrome after the Army Physical Fitness Test. A case report. Am J Sports Med. 2000:28(1)pp112-116.

2. Rhabdomyolisis :a review of the literature. F.Y.KHAN.The Netherland journal of Medicine, Okt.2009,Vol.67,NO 9 pp272-283.

3. Diagnosis and Treatment of Acute Exertional Rhabdomyolysis,Richard E.Baxter,PT,DSc,OCS,ATC,and Joseef H.Moore,PT,PhD,SCS,ATC.Journal of Orthopaedic & Sports Physical Therapy.Volume 33,Number 3,March 2003,104-108.

4. Rhabdomyolysis, Myoglobinuria,and ExerciseMilne CJ Wairua Medicine, Hamilton, New Zealand.Sports Medicine (Auckland, N.Z.) [1988, 6(2):93-106].

5. Myoglobin,rhabdomyolysis, and marathon running, Quarterly Journal of Medicine,vol.188,pp.463-472,1978 HAROLD B. SCHIFF,EAMONN T. M. MACSEARRAIGH and JEFFREY C. KALLMEYER.

6. Rehabilitation of Ten Soldiers with Exertional Rhabdomyolysis. CPT Terry Randall,SP USA.CPT Nikki Butler,SP USA. MILITARY MEDICINE, 161,9:564-566,1996.

 

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari

Comments are disabled.