Einn góðviðrisdag í vetur fékk ég símtal seinni partinn. Þetta var gamall vinnufélagi og áhugamaður um körfubolta. Hann var búinn að vera að stunda körfubolta einu sinni í viku með félögunum en nú var svo komið að það vantaði í liðið og fékk hann þá hugdettu að hringja í mig. Ég var laus og sló til. Þó að þolið væri ekki upp á marga fiska var þetta jafn gaman og mig minnti, þannig að ég mætti nokkrar vikur í röð.

Þá fór að bera á verk aftan á fótleggnum ofan við hælinn á stökk fætinum og leyndi sér ekki að ég var kominn með þetta þráláta fyrirbæri sem kallast á fræðimáli „Achilles tendinitis“. Ef ég hefði setið á strák mínum og tekið mark að á viðvörunarbjöllunum sem glumdu í höfðinu á mér, hefði ég farið öðruvísi að.

En akkúrat svona nálgun á íþróttaiðkun er ávísun á vandræði. Því skyndileg íþróttaástundun eftir langa fjarveru býður upp á svona niðurstöðu þ.e. Snöggir sprettir og stökk, langhlaup án mikils fyrirvara , brekku hlaup,stiga- eða fjallganga, að sleppa upphitun, stífir kálfavöðvar, hlaup á hörðu eða ójöfnu undirlagi, slæmir íþróttaskór og líffræðilegir gallar á fæti, eins og flatfótur.

Þetta vandamál er mjög algengt og sér í lagi hjá miðaldra íþróttamönnum. Ef menn þjösnast áfram, getur farið svo að ástandið versni og fari yfir á næsta stig „Achilles tendinosis“ og getur svo farið að hásinin trosni upp og slitni.

Einkennin eru eins og fyrr segir; verkur aftan á fótleggnum fyrir ofan hæl, sér í lagi eftir íþrótta iðkun, aukinn sársauki eftir langhlaup og spretti, eymsl og stirðleiki á morgnana, væg bólga eða hnúður á sininni, brak við snertingu eða hreyfingu á sininni og mátt minnkun í fæti.

Best er að fara til læknis sem fyrst áður en til vefjaskemmda kemur eða að sinin slitni.

Á meðan þú bíður eftir að komast að hjá lækni skaltu hætta íþróttaiðkun sem kallar fram sársauka og hvíla. Vefja með teygjubindi (stuðnings sokkar hjálpuðu mér) og kæla svæðið með íspoka (ekki lengur en 20 mínútur í senn og aldrei á bera húð) og hvíla fótinn í hálegu. Taka bólgueyðandi lyf og fara að huga að því að breyta um æfinga rútínu.

Þegar bráðastigi er lokið, er hægt að fara að huga að endurhæfa fótlegginn. Alfredsons 180 formúlan hefur virkað vel þegar aðrar aðferðir hafa ekki gefið árangur.

Hún fellst í því að standa á tábergi á t.d.tröppubrún á veika fætinum og slaka hælnum hægt niður fyrir brúnina. Þetta er gert 2 x á dag, 3 x15 skipti með hnéð rétt, og 3 x15 með hnéð bogið. Þannig að þetta verða 180 endurtekningar á dag, alla daga vikunnar. Þegar hægt er að framkvæma æfinguna án sársauka með eigin líkamsþyngd, skal bæta við þyngd með því að taka sér lóð í hönd og halda áfram að æfa þar til sársauki er ekki til staðar. Þá að fá sér þyngra lóð og endurtaka rútínuna og auka þannig þyngdina koll af kolli. Hámarks viðbótar þyngd væri 60 kg.

Ég fylgdi þessum ráðum og er nú laus við þennan „fjanda“.

 

1. Alfredson H, Lorentzon R Chronic Achilles tendinosis: recommendations for treatment and prevention. Sports Med 2000, 135-46

 

Höfundur: Hlöðver B. Jökulsson sjúkraþjálfari

 

Comments are disabled.